Ingibjörg Baldursdóttir f. 26. ágúst 1965 – d. 16. júlí 2016.
Ingibjörg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990. Diplóma í heilsugæsluhjúkrun árið 2007 og var í meistaranámi í klínískri sérhæfingu í hjúkrun með brjóstagjöf sem sérsvið. Tók alþjóðlegt brjóstagjafaráðgjafapróf (IBCLC) árið 2002. Starfaði við Heilsugæsluna frá árinu 1990 en svo við Miðstöð heilsuverndar barna frá árinu 2001 sem hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri yfir brjóstagjöf og málefnum barna innflytjenda til ársins 2009. Var sjálfstætt starfandi við ráðgjöf til mæðra um brjóstagjöf og mataræði barna. Stofnaði ásamt öðrum samtökin Stuðningskonur við brjóstagjöf en það eru mæður sem aðstoða aðrar mæður við brjóstagjöf á jafningjagrundvelli. Hóf samvinnu við Björkina haustið 2010 með námskeiðið Brjóstagjöf og umönnun nýburans. Ingibjörg starfaði sjálfstætt og sá um námskeið um brjóstagjöf og námskeiðið barnið byrjar að borða í fjölskyldumiðstöðinni Lygnu auk þess sem hún rak fyrirtækið Barnið okkar. Ingibjörg var formaður Félags Brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi þegar hún lést. Hún var einn af máttarstólpum félagsins og tók þátt í stofnun þess árið 2003 og var alla tíð mjög virk í félaginu. Einnig var hún tengiliður félagsins á erlendum vettvangi. Það er með mikilli sorg sem við kveðjum góða vinkonu, samstarfsfélaga og „mentor“. Í okkar starfi mun minning hennar lifa.