Konur eiga rétt á þremur vitjunum brjóstagjafaráðgjafa eftir fæðingu barns. Hægt er að óska eftir brjóstagjafaráðgjöf fyrstu sex mánuðina. Til að sjúkratryggingar greiði fyrir þjónustuna þarf að koma tilvísun frá heilbrigðisstarfsmanni. Hægt er að leita til brjóstagjafaráðgjafa þegar um er að ræða alvarleg vandamál við brjóstagjöf s.s. sýkingar, erfið sár, sogvillu og fleira þar sem þörf er á sérstakri ráðgjöf frá sérmenntuðum brjóstagjafarráðgjafa. Þá brjóstagjafaráðgjafa sem veita þessa þjónustu er að finna í listanum hér til hliðar. Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þá þjónustu. Skilyrði er að brjóstagjafaráðgjafinn sé ljósmóðir sem jafnframt hefur leyfi til að sinna heimaþjónustu. Brjóstagjafaráðgjafar mega þeir einir titla sig sem hafa lokið alþjóðlegu prófi á vegum The International Board of Lactation Consultant Examiners og hafa haldið þeim réttindum við. Sjá enn frekar rammasamning ljósmæðra og Sjúkratrygginga Íslands . Helstu ástæður fyrir tilvísun til brjóstagjafaráðgjafa fyrstu dagana hafa verið sársauki við brjóstagjöf, oftast vegna sára á geirvörtum, lítil mjólkurframleiðsla, sogvilla og óeðlilega mikið þyngdartap barns svo dæmi séu tekin.
Brjóstagjafaráðgjafar sem starfa á sjúkrahúsum og í Heilsugæslunni
Brjóstagjafaráðgjafar starfa bæði innan sjúkrastofnana og heilsugæslunnar. Yfirleitt er það þannig að ef að mæður lenda í vandamálum í brjóstgjöfinni og þurfa aðstoð, þá er fyrst leitað til annaðhvort ljósmóður í heimaþjónustu eða hjúkrunarfræðings í ung- og smábarnavernd. Ef að upp koma þess konar tilfelli sem þessir fagaðilar geta ekki leyst, þá vísa þeir á brjóstagjafaráðgjafa, annaðhvort með vitjun í heimahús hjá ljósmæðrum sem einnig eru bróstagjafaráðgjafar eða brjóstagjafaráðgjafa sem starfa innan heilsugæslunnar eða sjálfstætt starfandi brjóstagjafaráðgjafa.
Sjálfstætt starfandi brjóstagjafaráðgjafar
Sumir brjóstagjafaráðgjafar sem að starfa innan sjúkrastofnana eða heilsugæslu starfa einnig sjálfstætt þannig að þær sinna heimavitjunum. Hér á síðunni má sjá lista yfir brjóstagjafaráðgjafa og þjónustu þeirra.